Norska félagið Elverum viðheldur tengingum sínum við íslenska handknattleiksmenn og fær leikmann úr röðum Hauka í Hafnarfirði í sumar.
Félagið tilkynnti að Orri Freyr Þorkelsson hafi samið við Elverum og muni leika með liðinu á næsta keppnistímabili í Noregi en Elverum hefur einnig verið í Evrópukeppnum undanfarin ár.
Orri Freyr hefur skorað 6 mörk að meðaltali fyrir Hauka í fimmtán leikjum í vetur.
Margir Íslendingar hafa komið við sögu hjá félaginu. Síðast voru það þeir Sigvaldi Björn Guðjónsson og Þráinn Orri Jónsson en þeir urðu norskir meistarar með liðinu. Þegar Elverum varð norskur meistari árið 2008 voru þrír Íslendingar hjá liðinu. Axel Stefánsson sem þjálfaði og Ingimundur Ingimundarson og Sigurður Ari Stefánsson léku með liðinu.