Getur orðið tvöfaldur meistari í Sviss

Harpa Rut Jónsdóttir í búningi Zug.
Harpa Rut Jónsdóttir í búningi Zug.

Harpa Rut Jónsdóttir handknattleikskona frá Akureyri hefur átt góðu gengi að fagna með liði sínu Zug í svissneska handboltanum í vetur og hún er komin í úrslitaleiki um stóru titlana, bæði svissneska meistaratitilinn og bikarinn.

Þá er Harpa tilnefnd í kjöri á vinsælustu leikmönnum svissnesku A-deildarinnar meðal stuðningsfólks en þar er hægt að kjósa um þrjá leikmenn frá hverju liði og Harpa er ein af þremur leikmönnum úr Zug sem eru á þeim lista.

Zug mætir Spono Eagles í úrslitaleik bikarkeppninnar á laugardaginn kemur. Lið hennar endaði í þriðja sæti A-deildarinnar í vetur, á eftir Bruhl og Spono Eagles, en sló síðan Spono Eagles út í undanúrslitunum með því að vinna einvígi liðanna 2:0.

Í úrslitunum um meistaratitilinn eru leiknir allt að fimm leikir en liðið sem vinnur þrjá leiki verður svissneskur meistari. Fyrsti úrslitaleikurinn fer fram á heimavelli Bruhl 18. maí.

Harpa er 24 ára gömul og leikur á línunni en hún var í röðum KA/Þórs þar til hún flutti til Sviss og spilaði síðast með Akureyrarliðinu í úrvalsdeildinni tímabilið 2014-15. Hún lék með varaliði Zug í B-deildinni á síðasta tímabili en hefur leikið með aðalliðinu á tímabilinu sem nú er að ljúka. Áður spilaði hún í tvö ár með liði BSV Stans í svissnesku B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert