Færeyingar halda áfram að treysta Íslendingum fyrir þjálfun liða í knattspyrnu og handknattleik og nú er Kristinn Guðmundsson á leið til Færeyja.
Kristinn mun láta af störfum hjá ÍBV í Olís deild karla í handknattleik að keppnistímabilinu loknu og mun hefja störf hjá Eiði á Austurey í Færeyjum hinn 1. júlí. Handbolti.is greinir frá þessu og segir Kristinn í viðtali við miðilinn að aðstaðan sé frábær hjá félaginu og efniviðurinn nægur.
Kristinn mun stýra kvennaliði félagsins sem mun leika í efstu deild en mun einnig koma að þjálfun karla og kvenna í elstu aldursflokkum yngri flokkanna.
Á síðustu árum hefur færst í vöxt að íslenskir þjálfarar í knattspyrnu og handknattleik reyni fyrir sér í Færeyjum. Í handboltanum má nefna Ágúst Jóhannsson, Einar Jónsson og Arnar Gunnarsson auk þess sem Finnur Hansson hefur verið þar meira eða minna í rúma tvo áratugi. Í knattspyrnunni fóru til að mynda Heimir Guðjónsson, Guðjón Þórðarson og Heiðar Birnir Torleifsson til Færeyja fyrir örfáum árum.