Ólafur Andrés Guðmundsson, vinstri skytta sænska úrvalsdeildarfélagsins Kristianstad og íslenska landsliðsins í handknattleik, segir ekkert hæft í orðrómi um að hann sé á heimleið eftir áratugar dvöl í atvinnumennsku í Svíþjóð og Þýskalandi.
„Ég er alls ekki á heimleið. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum Kristianstad í Svíþjóð og er þar að auki á besta aldri. Til viðbótar tel ég mig eiga enn þá nóg eftir hér úti,“ sagði Ólafur Andrés í samtali við Handbolta.is í gær.
Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um að Ólafur Andrés, sem er þrítugur, væri á heimleið, auk þess sem hann hefur einnig verið orðaður við félög í frönsku 1. deildinni.
Sem áður segir er ekkert hæft í orðrómnum og hann úr lausu lofti gripinn að sögn Ólafs Andrésar.