ÍBV líður vel í hækkandi sól

Theodór Sigurbjörnsson í baráttunni við Björgvin Hólmgeirsson í Vestmannaeyjum í …
Theodór Sigurbjörnsson í baráttunni við Björgvin Hólmgeirsson í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Theodór Sigurbjörnsson átti mjög góðan leik er Eyjamenn unnu öflugan tveggja marka sigur á Stjörnunni í dag, í 19. umferð Olís-deildar karla í handbolta. Theodór minnti vel á sig og skoraði tíu mörk, flest úr horninu.

„Innkoman hjá Petar var okkur mikilvæg í seinni hálfleik og lagði grunninn að þessum sigri. Það kveikti í okkur í leiðinni, heilt yfir vorum við fínir þannig séð en hann lagði grunninn að þessu í seinni.“

Eyjamenn voru þó ekkert að spara hann í fyrri hálfleik.

„Björn Viðar var frábær á Nesinu í síðasta leik, hann auðvitað byrjaði leikinn í dag, við fengum líka á okkur mikið af dauðafærum í einhverju 1., 2. og 3. tempó drullu. Við náðum ekki að stilla mikið upp í vörn og þá var þetta erfitt í fyrri hálfleik.

ÍBV fékk mikið af auðveldum mörkum í seinni hálfleik eftir að hafa unnið boltann í vörninni.

„Við fórum í þessa ÍBV-vörn og hún small, þar af leiðandi fengum við þessi þægilegu mörk í kjölfarið. Hann var að klukka þessa bolta bakvið líka og þetta helst í hendur.“

Staðan á toppnum er mjög jöfn og tryggði ÍBV sér sigurinn í innbyrðisviðureignum gegn Stjörnunni með sigrinum í dag, Theodór segir leikmenn þó ekkert hafa verið að spá í því.

„Nei við pældum ekkert í því, þetta voru bara tvö gríðarlega mikilvæg stig sem voru í boði hér í dag, þetta voru risastórir tveir punktar og okkur mikilvægir. Við vorum ekki neitt að pæla í einhverju innbyrðisdæmi enda nefndi það enginn fyrir leik.“

Eyjamenn hafa verið á góðu róli og einungis tapað einum leik af síðustu sex og unnið hina fimm. Það styttist í úrslitakeppni og menn því orðnir spenntir fyrir henni.

„ÍBV líður alltaf vel þegar það er hækkandi sól.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert