Það er ekki oft sem mæðgur spila saman í meistaraflokki í flokkaíþrótt en það gerðist í lokaumferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í gær þegar HK sótti Val heim að Hlíðarenda.
Hin þrautreynda Kristín Guðmundsdóttir var að vanda í liði HK en dóttir henna Embla Steindórsdóttir, sem er aðeins 15 ára gömul, var í fyrsta skipti í aðalliði Kópavogsliðsins á tímabilinu eftir að hafa gert það gott með liði HK U í 1. deild kvenna, Grill 66-deildinni.
Kristín skoraði þrjú mörk fyrir HK í leiknum en hún lék alla fjórtán leiki liðsins í Olísdeildinni í vetur og skoraði 47 mörk. Embla kom inn á seint í leiknum og krækti þá í vítakast fyrir Kópavogsliðið. Valur vann leikinn 27:20.
Þær gætu spilað fleiri leiki saman í vor því HK endaði í sjöunda sæti Olísdeildarinnar, sem lauk í gær, og fer því í umspil um eitt sæti í efstu deild. Þar mætir HK liði Fjölnis/Fylkis í fyrsta leiknum á miðvikudaginn kemur.