Haukar einum sigri frá deildarmeistaratitlinum

Adam Haukur Baumruk skoraði 6 mörk fyrir Hauka í kvöld.
Adam Haukur Baumruk skoraði 6 mörk fyrir Hauka í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar eru skrefinu nær deildarmeistaratitli karla í handknattleik eftir sigur á Fram í Safamýri í kvöld, 35:29.

Haukar eru með sjö stiga forskot á granna sína í FH en Haukar eiga þrjá leiki eftir og FH-ingar fjóra.

Framarar sitja áfram í níunda sætinu með 18 stig, einu stigi á eftir Aftureldingu og KA, og eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Framarar byrjuðu betur en Haukar náðu fljótlega undirtökunum og komust mest fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleiknum. Framarar minnkuðu hinsvegar muninn í eitt mark undir lok hálfleiksins og Haukar voru með nauma forystu í hálfleik, 16:15.

Fram jafnaði metin í byrjun síðari hálfleiks og jafnt var á flestum tölum framyfir miðjan hálfleik. Haukar komust í 28:25 þegar tíu mínútur voru eftir og eftir það áttu Framarar ekki möguleika á lokakaflanum.

Mörk Hauka: Adam Haukur Baumruk 6, Stefán Rafn Sigurmannsson 6, Geir Guðmundsson 5, Þráinn Orri Jónsson 5, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Orri Freyr Þorkelsson 3, Heimir Óli Heimisson 3, Tjörvi Þorgeirsson 2, Guðmundur Bragi Ástþórsson 1. Björgvin Páll Gústavsson varði 5 skot og Andri Sigmarsson Scheving 4.

Mörk Fram: Vilhelm Poulsen 7, Andri Már Rúnarsson 6, Stefán Darri Þórsson 4, Kristinn Hrannar Bjarkason 3, Þorgrímur Smári Ólafsson 2, Matthías Daðason 2, Þorvaldur Tryggvason 2, Arnór Róbertsson 1, Arnar Snær Magnússon 1, Ólafur Jóhann Magnússon 1. Lárus Helgi Ólafsson varði 7 skot og Valtýr Már Hákonarson 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert