Vinstri skyttan Ragnheiður Júlíusdóttir, leikmaður Fram og íslenska landsliðsins í handknattleik, endaði markahæst í úrvalsdeild kvenna, Olísdeildinni, í ár.
Skoraði hún 121 mark í leikjunum 14 í deildinni á tímabilinu, sem gerir rúmlega 8,6 mörk að meðaltali í leik. Næst á eftir Ragnheiði kom Eva Björk Davíðsdóttir, leikmaður Stjörnunnar og landsliðsins, með 101 mark.
Þetta er í annað sinn sem Ragnheiður endar sem markadrottning úrvalsdeildarinnar, en hún var einnig markahæst tímabilið 2017/2018 þegar hún skoraði 147 mörk í 21 leik.
Olísdeildinni lauk um helgina þar sem Fram gerði 27:27 jafntefli við KA/Þór í hreinum úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn. Þrátt fyrir að liðin tvö hafi endað jöfn að stigum vann KA/Þór titilinn vegna betri árangurs í innbyrðis viðureignum þeirra á tímabilinu.
„Ég er þokkalega sátt við mína frammistöðu miðað við hvernig þetta tímabil hefur verið. En ef ég hugsa um síðasta tímabil til samanburðar þá finnst mér ég hafa verið í betra leikformi þá heldur en núna og held ég að það sé sökum Covid, enda færri leikir spilaðir.
Ég er bara fegin að hafa klárað deildina þrátt fyrir að hafa ekki náð markmiðinu, deildarmeistaratitlinum,“ sagði Ragnheiður í samtali við Handbolta.is í gær.