ÍBV vann góðan 21:17 sigur á Stjörnunni í fyrsta leik fyrstu umferðar úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í dag.
Leikurinn fór afar rólega af stað og áttu bæði lið í stökustu vandræðum með að fóta sig almennilega í sóknarleiknum. Staðan var enda aðeins 1:1 þegar tæpar 10 mínútur voru liðnar af leiknum.
Eyjakonur náðu forystu, 3:1, og eftir að hafa Stjörnukonur minnkuðu muninn í eitt mark tók ÍBV öll völd og skoraði næstu fjögur mörk, staðan orðin 7:2 þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður.
Frábær varnarleikur og mjög góð markvarsla Mörtu Wawrzynkowska sáu til þess að ÍBV hvikaði lítið frá þessari góðu forystu. Stjarnan náði þó að laga stöðuna örlítið áður en flautað var til leikhlés og staðan í hálfleik 10:6.
Eyjakonur mættu gífurlega ákveðnar til síðari hálfleiksins og náðu fljótt átta marka forystu, 15:7. Stjörnukonur tóku þó virkilega vel við sér eftir það og minnkuðu muninn í 16:13.
ÍBV hleyptu gestunum þó ekki nær sér en þetta. Um miðjan hálfleikinn 16:13 fékk Stjarnan víti. Marta varði laglega frá Elísabetu og Eyjakonur tóku leikinn yfir að nýju.
Þær komust í 20:14 forystu áður en þær slökuðu aðeins á klónni undir lokin. Leiknum lauk með góðum fjögurra marka sigri ÍBV, 21:17.
Markahæstar í liði ÍBV voru þær Ásta Björt Júlíusdóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, báðar með sex mörk.
Helena Rut Örvarsdóttir í liði Stjörnunnar var sömuleiðis með sex mörk og þar á eftir kom Eva Björk Davíðsdóttir með fimm mörk.
Bæði lið voru með góða markvörslu í leiknum, þar sem Marta varði 11 skot og Heiða Ingólfsdóttir í marki Stjörnunnar varði.
Stjörnukonur brenndu sig einna helst á því að tapa boltanum trekk í trekk. Má vitanlega skrifa það að miklu leyti á sterkan varnarleik Eyjakvenna en í fjölda skipta áttu gestirnir afskaplega slakar sendingar fram þegar þær freistuðu þess að fara í skyndisóknir og því fór sem fór.
Stjarnan og ÍBV mætast að nýju í öðrum leik fyrstu umferðar úrslitakeppninnar næstkomandi sunnudag í Garðabænum.