Þeir Bjarki Már Elísson og Viggó Kristjánsson eru markahæstu leikmenn Lemgo og Stuttgart í þýsku 1. deildinni í handknattleik í vetur og voru mest áberandi þegar lið þeirra mættust í dag.
Bjarki var markahæstur hjá Lemgo, sem vann leik liðanna 35:29, en hann skoraði 8 mörk og hefur nú gert 158 mörk í 25 leikjum í vetur. Hann er sjöundi markahæsti leikmaður deildarinnar en hefur leikið færri leiki en keppinautarnir. Lemgo er í 10. sæti með 28 stig.
Viggó var markahæstur hjá Stuttgart með 6 mörk og hann hefur nú gert 187 mörk í 30 leikjum og er fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar. Stuttgart er í 12. sæti með 26 stig.
Gunnar Steinn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Göppingen sem vann öruggan sigur á Essen, 35:27. Göppingen er í fimmta sæti með 37 stig.
Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer sem tapaði óvænt fyrir Ludwigshafen á útivelli, 28:22. Bergischer er í 9. sæti með 29 stig.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark fyrir Melsungen, undir stjórn Guðmundar Þ. Guðmundssonar, sem gerði jafntefli, 30:30, við Minden á útivelli. Melsungen er í 8. sæti með 30 stig.