HK aftur upp í efstu deild

Elías Már Halldórsson stýrði HK upp í efstu deild.
Elías Már Halldórsson stýrði HK upp í efstu deild. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

HK er komið upp í efstu deild karla í handbolta eftir 29:16-sigur á Fram U á útivelli í Grill 66 deild karla í kvöld. HK nægði sigur til að tryggja sér efsta sæti deildarinnar, þrátt fyrir að vera með jafnmörg stig og Víkingur, sem endar í öðru sæti. 

HK-ingar voru sannfærandi í kvöld og var staðan í hálfleik 16:11. Einar Bragi Aðalsteinsson og Simon Michael Guðjónsson gerðu fimm mörk hvor fyrir HK og Aron Örn Heimisson fjögur fyrir Framliðið. 

HK og Víkingur enda bæði með 32 stig, en HK er með betri árangur innbyrðis og fara Víkingar því í umspil. Víkingsliðið gerði góða ferð til Ísafjarðar í kvöld og vann 36:32-sigur. 

Víkingur, Fjölnir, Kría og Hörður fara í umspil um annað laust sæti í efstu deild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert