Stjarnan upp í fjórða sætið

Hafþór Már Vignisson skorar eitt marka sinna í leiknum í …
Hafþór Már Vignisson skorar eitt marka sinna í leiknum í dag. Mbl.is/Hafsteinn

Stjarnan vann sterkan 31:28 sigur gegn Val í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í kvöld. Með sigrinum fara Garðbæingar upp fyrir Val í fjórða sæti deildarinnar.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður tóku Stjörnumenn yfir og komust í 10:6 forystu. Garðbæingar náðu að halda fjögurra marka forystunni og voru 17:13 yfir í hálfleik.

Í síðari hálfleiknum komu Valsmenn gífurlega öflugir til leiks á meðan Stjörnumönnum auðnaðist illa að skora. Valur sneri meira að segja taflinu við og komst í 18:19.

Valsmenn héldu forystunni um nokkra stund og komust í 21:22 forystu. Þá var röðin komin að Stjörnumönnum, sem sigldu fram úr Valsmönnum og náðu 29:24 forystu.

Gestirnir löguðu stöðuna aðeins áður en yfir lauk og lauk leiknum með góðum þriggja marka sigri Stjörnunnar, 31:28.

Stjörnumenn skiptu mörkunum bróðurlega á milli sín þar sem Hafþór Már Vignisson og Dagur Gautason skoruðu sex mörk hvor, auk þess sem Tandri Már Konráðsson skoraði fimm mörk.

Markahæstur í leiknum var Tumi Steinn Rúnarsson hjá Val með átta mörk. Næstmarkahæstur í liði Valsmanna var Agnar Smári Jónsson með fimm mörk.

Stjarnan er nú með 23 stig í fjórða sætinu, jafnmörg stig og Valur sem fer niður í fimmta sætið. Bæði lið eru nálægt því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn þegar þau eiga eftir að spila tvo leiki í Olísdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert