Eyjakonur í undanúrslitin

Ásta Björt Júlíusdóttir og stöllur hennar í ÍBV tryggðu sér …
Ásta Björt Júlíusdóttir og stöllur hennar í ÍBV tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

ÍBV gerði góða ferð í TM höllina í Garðabænum þegar liðið vann góðan 29:26 sigur gegn Stjörnunni í öðrum leik fyrstu umferðar úrslitakeppni Íslandsmótsins í handknattleik kvenna. ÍBV mætir deildarmeisturum KA/Þórs í undanúrslitunum.

Stjörnukonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust snemma í 2:0. Eyjakonur voru þó ekki lengi að jafna metin. Stjarnan komst áfram einu marki yfir en ÍBV jafnaði jafnharðan.

Eftir að staðan var orðin 5:5 komust Eyjakonur í fyrsta sinn yfir í leiknum þegar tæplega 12 mínútur voru liðnar af honum, 6:5. Í kjölfarið sigldu þær fram úr Stjörnukonum og komust í 11:6, og var sú fimm marka forysta sú mesta sem náðist í fyrri hálfleiknum.

Þá tóku Stjönukonur aðeins við sér á ný og náðu að lokum að minnka muninn niður í þrjú mörk, 13:10, sem voru hálfleikstölur.

Í síðari hálfleik voru það gestirnir í ÍBV sem mættu ákveðnari til leiks og náðu mest sjö marka forystu, 20:13. Stjörnukonur skoruðu næstu þrjú mörk og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk, 20:16 en enn á ný gáfu Eyjakonur í og náðu aftur sjö marka forystu, 26:19.

Stjörnukonur klóruðu í bakkann og undir lok leiks náðu þær að minnka muninn í tvö mörk, 27:25, en komust ekki nær en það og þriggja marka sigur Eyjakvenna, 29:26, því staðreynd.

Í liði ÍBV voru þær Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Harpa Valey Gylfadóttir öflugar og skoruðu báðar átta mörk. Þá skoraði Ásta Björt Júlíusdóttir fimm mörk.

Markahæst í leiknum var þó Stjörnukonan Helena Rut Örvarsdóttir, sem skoraði níu mörk. Stefanía Theodórsdóttir var næstmarkahæst í liði Garðbæinga með fimm mörk.

Í markinu hjá ÍBV átti Marta Wawrzukowska stórleik; varði 13 skot og var með tæplega 42 prósent markvörslu.

Eftir 21:17 sigur í Vestmannaeyjum síðastliðinn fimmtudag vinnur ÍBV einvígið samtals 2:0 og er þar með komið í undanúrslit úrslitakeppninnar.

Stjarnan 26:29 ÍBV opna loka
60. mín. Katrín Tinna Jensdóttir (Stjarnan) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert