KA vann mikilvægan 29:27 sigur gegn ÍBV í úrvalsdeild karla í handknattleik í dag, Olísdeildinni. KA steig þar með gott skref í áttina að því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.
Eftir jafnræði með liðunum til að byrja með náðu KA-menn fjögurra marka forystu, 14:10, eftir tæplega 23 mínútna leik.
Eyjamenn klóruðu aðeins í bakkann og náðu að laga stöðuna áður en flautað var til hálfleiks. Staðan 17:15, KA í vil, í leikhléi.
Í síðari hálfleiknum unnu Eyjamenn sig betur inn í leikinn og náðu að jafna í 20:20 eftir 37 mínútna leik.
KA-menn náðu aftur að komast í tveggja marka forystu, 24:22, en Eyjamenn sneru taflinu við og komust einu marki yfir þegar skammt lifði leiks, 26:27.
Það voru hins vegar KA-menn sem reyndust hlutskarpari og skoruðu síðustu þrjú mörkin á síðustu fjórum mínútunum og tryggðu sér tveggja marka sigur.
KA er áfram í áttunda sæti deildarinnar, síðasta sætinu sem gefur sæti í úrslitakeppninni og er með fjögurra stiga forskot og leik til góða á Fram í níunda sætinu. Fram tapaði í dag gegn Selfossi.
Árni Bragi Eyjólfsson átti stórleik fyrir KA í dag og skoraði níu mörk.
Færeyski Bretinn Nicholas Satchwell var þá öflugur í marki KA og varði 16 skot, og var með 39 prósent markvörslu.
Þá vann Afturelding auðveldan 33:27 sigur gegn stigalausu liði ÍR í dag.