Selfoss vann öruggan sigur á Fram, 32:28, í Olísdeild karla í handbolta í dag. Sigur Selfoss var aldrei í hættu en liðið náði mest þrettán marka forystu í seinni hálfleik.
Selfyssingar eru nú með 24 stig í 3. sæti deildarinnar og eru komnir langt með að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni þó að pakkinn sé þéttur á töflunni þar fyrir neðan. Framarar eru hins vegar að missa af lestinni hvað úrslitakeppnina varðar, en tvær umferðir eru eftir í deildinni.
Þó að Selfoss hafi oft átt í stökustu vandræðum með Fram á síðustu misserum þá er óhætt að segja að þeir bláu hafi mætt ofjörlum sínum í dag. Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleiknum og í stöðunni 5:5, eftir 10 mínútna leik, rifu þeir sig frá gestunum og náðu sex marka forskoti, 14:9. Staðan var 20:14 í leikhléi.
Atli Ævar Ingólfsson fór mikinn á línunni hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik en hann skoraði fimm af átta mörkum sínum í leiknum á fyrstu fimmtán mínútum leiksins. Ragnar Jóhannsson hefur átt misjafna leiki fyrri Selfoss á tímabilinu en hann sýndi í dag úr hverju hann er gerður og var hrikalega sterkur bæði í vörn og sókn.
Framarar áttu í basli í sókninni þar sem þeir léku án Þorgríms Smára Ólafssonar nær allan leikinn. Vilhelm Poulsen var atkvæðamikill í fyrr hálfleiknum og Andri Már Rúnarsson var duglegur að keyra á Selfossvörnina. Annars réðu Framarar ekkert við Selfyssinga í dag og gæðin voru einfaldlega meiri hjá ríkjandi Íslandsmeisturunum. Þá munaði líka mikið um markvörsluna. Markverðir Fram fundu sig ekki á meðan stemningsvíkingurinn Vilius Rasimas varði vel í marki Selfoss.
Þegar tíu mínútur voru eftir hleypti Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, ungu mönnunum inn á gólfið. Meðalaldur Selfossliðsins var 19 ár á þessum kafla. Það bar ekki árangur en einhvers staðar þurfa þessir strákar að fá mínútur til að skólast til. Fram „vann“ þessar tíu mínútur 11:2 og náði að minnka muninn niður í fjögur mörk. Það var hins vegar aldrei nein hætta á ferðum fyrir Selfyssinga sem voru löngu búnir að gera út um leikinn.
Atli Ævar var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk og Ragnar skoraði 7. Rasimas varði 13 skot.
Hjá Fram var Vilhelm Poulsen með 6/2 mörk og Þorvaldur Tryggvason og Andri Már Rúnarsson skoruðu báðir 5 mörk. Lárus Helgi Ólafsson varði 7/2 skot í marki Fram.