Handboltamaðurinn Aron Dagur Pálsson hefur skrifað undir eins árs samning við Guif í Svíþjóð. Hann kemur til félagsins frá Alingsås, en bæði lið leika í efstu deild.
Aron er uppalinn Gróttumaður en hann lék með Stjörnunni áður en hann hélt út til Svíþjóðar. Leikstjórnandinn, sem er 24 ára, lék með yngri landsliðum Íslands á sínum tíma.
Guif endaði í áttunda sæti sænsku deildarinnar á leiktíðinni og féll úr leik í átta liða úrslitum í úrslitakeppninni. Markvörðurinn Daníel Freyr Andrésson leikur með Guif.