Framarar voru ólíkir sjálfum sér í 28:22-tapi gegn Val í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Heimakonur lentu mest átta mörkum undir og voru í miklum vandræðum með varnarleik sinn.
„Ég er ótrúlega svekkt, þetta var alls ekki nógu góður leikur hjá okkur. Vörnin var hræðileg og engin markvarsla. Þær voru klókar, taka Karen úr umferð, en við erum hikandi í sókn og ekki nógu skipulagðar,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir tæpitungulaust við mbl.is strax að leik loknum.
Hún hrósaði einnig Valskonum fyrir góðan leik en bætti við að Fram þyrfti að mæta tvíeflt til leiks á miðvikudaginn er liðin mætast öðru sinni á Hlíðarenda.
„Valsliðið er búið að bæta sig mikið í vetur og það er greinilega komið mikið sjálfstraust í þær. Þær eru flottar og með mikla stemningu en við vorum bara ekki við sjálfar hérna í dag. Við viljum spila góðan varnarleik og fá hraðaupphlaup, við fáum ekkert af því og erum sjálfum okkur verstar.“
Takist Fram að vinna á miðvikudaginn knýja þær fram oddaleik sem verður spilaður í Framhúsinu í Safamýri næsta laugardag. Ragnheiður setur stefnuna þangað. „Við verðum að fara aðeins yfir skipulagið og mæta miklu betur stemmdar á miðvikudaginn. Það verður svo bara geggjað að vinna þessa rimmu næsta laugardag.“