Landsbyggðarliðin KA/Þór og ÍBV mættust í dag í fyrsta leik í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handbolta. Tvo sigra þarf til að komast í lokaúrslitin.
KA/Þór byrjaði leikinn eins og best verður á kosið, með tveimur markvörslum og mörkum í kjölfarið. Eyjakonur virtust illa áttaðar og í stöðunni 7:3 tók Sigurður Bragason leikhlé fyrir ÍBV. Eftir það gekk mun betur hjá gestunum og smám saman saxaði ÍBV á forskot KA/Þórs. ÍBV minnkaði muninn þrívegis í eitt mark en í stöðunni 10:9 kom góður kafli hjá heimakonum og þær komust í 14:10. Lokasókn KA/Þórs hefði getað sent þær með fimm marka forskot inn í hálfleikinn en Marta Wawrzynkowska varði frá Mörthu Hermannsdóttur og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir náði skoti og marki á lokasekúndunni. Staðan var því 14:11 í hálfleik.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var allt í öllu hjá ÍBV í fyrri hálfleik en allt of mikið mæddi á henni. Ásta Björt Júlíusdóttir reyndi hvað hún gat í að leggja Hönnu lið en aðrar voru ekki að skila miklu, a.m.k. ekki í sóknarleiknum.
KA/Þór var með átta markaskorara í fyrri hálfleik og bæði Rut Jónsdóttir og Martha Hermannsdóttir höfðu hægt um sig.
Fyrstu fimmtán mínútur seinni hálfleiks voru eign Eyjakvenna og fjórir tapaðir boltar KA/Þórs og fimm vörslur frá Mörtu breyttu stöðunni í 16:16. Eftir að hafa hreinlega aftengt alla sóknartöfra KA/Þórs þar sem hvert skot heimakvenna fór framhjá þá komst ÍBV í 20:17. Eftir það var KA/Þór að elta fram á síðustu mínútu. Í þrígang gat KA/Þór jafnað leikinn en það brást og ÍBV var marki yfir þegar síðasta mínútan rann upp. Sókn ÍBV tók nánast alla þá mínútu og tíminn rann út. Leiknum lauk 27:26 og þarf ÍBV sigur á heimavelli í næsta leik til að tryggja sig í úrslitin
Sigur ÍBV var frábær og stuðningsfólk liðsins lyfti liðinu yfir erfiðustu hjallana. Taktískt séð þá var ÍBV að máta KA/Þór, sem sá ekki ástæðu til að taka Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur úr umferð fyrr en í blálokin. Á meðan var ÍBV með mann á Rut Jónsdóttur nánast allan leikinn.
Hrafnhildur hreinlega vann þennan leik. Hún skoraði 11 mörk og hjó á hnúta sókn eftir sókn. Ásta Björk tók svo við þegar Hrafnhildur var tekin út. Leikur Mörtu Wawrzynkowska í markinu í seinni hálfleik hafði líka mikið að segja en leikmenn KA/Þórs sem að jafnaði nýta færin sín vel voru alveg teknir úr sambandi af Mörtu.
Heimakonur voru margar ólíkar sjálfum sér í þessum leik, sérstaklega eftir því sem leið á leikinn, og virtust bara ekki þola spennuna. Aðeins Rakel Sara Elvarsdóttir blómstraði allan leikinn og hún var mjög drjúg á lokasprettinum og skoraði úr öllum sínum skotum.