Andri Snær Stefánsson er nánast alltaf hress og kátur en hann var það nú ekki eftir að ÍBV hafði unnið KA/Þór með eins marks mun í fyrsta leik undanúrslitanna í handbolta kvenna. Andri Snær er þjálfari KA/Þórs og þurfti hann að horfa upp á algjört hrun hjá liðinu á kafla í seinni hálfleik þar sem ÍBV sneri leiknum sér í vil.
„Þetta var ekki gott í dag og við erum mjög svekkt að hafa kastað frá okkur góðri stöðu. Við erum í lykilstöðu á ákveðnum tímapunktum í leiknum en gerum ekki nógu vel og því er svekkjandi að fá ekki sigur.“
Fyrri hálfleikurinn var ykkar og ekki mikið vandamál. Þið byrjið vel en ÍBV minnkar í eitt mark. Svo bara takið þið aftur yfir og hefðuð getað verið fimm mörkum yfir í hálfleik. Í staðinn fáið þið mark í andlitið og staðan 14:11 í hálfleik.
„Það var dálítið fúlt en engu að síður þá var það í seinni sem við bara klúðruðum allt of mörgum dauðafærum til þess að vinna leikinn. Við skutum bara illa. Við vorum með fullt af möguleikum til að vinna leikinn en nýttum okkar stöður illa. Þetta var mjög, mjög svekkjandi í ljósi þess að við lögðum allt í þetta og börðumst. Það vantaði klókindi í færunum á lykilstundum.“
Það virtist hreinlega sem leikmenn væru of taugaspenntir. Þeir voru margir ólíkir sjálfum sér.
„Það leit alveg þannig út. Engu að síður eru mínar stelpur hundsvekktar og eru keppnismanneskjur sem hafa oft sýnt karakter í vetur. Við þurfum núna að rífa okkur upp og skoða hvað við getum gert betur. Þetta er hvergi nærri búið. Það er fullt sem við viljum laga fyrir næsta leik og það verður gaman að mæta í handboltastemningu í Eyjum. Við mætum vel tilbúin í næsta slag.“
Eyjamenn komu með öflugt stuðningslið hingað til Akureyrar. Er nokkuð til of mikils mælst að hvetja Akureyringa til að drífa sig á leikinn í Eyjum á miðvikudaginn?
„Ég hvet þá Akureyringa sem eiga möguleika á að mæta á leikinn. Þetta verður hörkuleikur, klárlega stál í stál, frábær lið. Siggi Braga er að búa til bardagamenn í þessu liði og við erum líka bardagamenn og við ætlum að sýna það á miðvikudaginn.“
Ein spurning að lokum. Hrafnhildur Hanna raðaði á ykkur mörkum allan seinni hálfleikinn en þið takið hana úr umferð þegar stutt er eftir. Hefði mátt gera það fyrr?
„Við prófuðum þetta í lokin en við erum bara með mikla trú á okkar vörn og skipulagi. Það er eflaust fullt af hlutum sem ég hefði getað gert öðruvísi og það er allt á fullu í hausnum núna. Við munum bara nýta tímann og skoða hvað við hefðum getað gert öðruvísi og mætum klár á miðvikudaginn,“ sagði Andri Snær og búast má við að þau orð standi.