Stuðningurinn úr stúkunni réð úrslitum

Hrafnhildur Hanna átti glæsilegan leik í dag.
Hrafnhildur Hanna átti glæsilegan leik í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir átti algjöran draumaleik í dag þegar ÍBV vann deildarmeistara KA/Þórs í KA-heimilinu á Akureyri. Á löngum köflum hélt Hrafnhildur uppi sóknarleik ÍBV og hún virtist geta skorað þegar henni datt í hug. Selfyssingurinn geðþekki var gripinn í viðtal eftir leik og gerði hún lítið úr sínum hlut. 

Þetta var geggjaður sigur hjá ykkur og sætur sigur. Þú varst með 11 mörk í leiknum og virtist sú eina á köflum sem gast fundið leið í netið. 

„Þetta var klárlega liðssigur hér í dag. Það skiptir nú engu hverjir skora þessi mörk, bara hvað stendur á markatöflunni þegar leik lýkur. Stuðningurinn sem við fengum úr stúkunni var alveg geggjaður og hann bara réð úrslitum. Þetta var okkar áttundi maður inni á vellinum og við fengum svo mikinn kraft frá stuðningsmönnunum. Þetta small að lokum hjá okkur á móti virkilega sterku liði KA/Þórs. Við erum mjög glaðar.“ 

Miðað við byrjunina á leiknum þá var að sjá að þetta yrði erfitt hjá ykkur en þið sýnduð mikla seiglu og náðuð að snúa leiknum. 

„KA/Þór er deildarmeistari og með þvílíkt gott lið. Það er ekkert einfalt að koma hingað á þeirra heimavöll og taka sigur. Þetta var erfitt í byrjun og allan leikinn og þess vegna var mjög ánægjulegt að klára þetta.“ 

Þið sneruð leiknum í fyrri hluta seinni hálfleiks og svo var svakaleg spenna allt til loka. Hvernig er að spila svona spennuleiki? 

„Þetta eru skemmtilegustu leikirnir. Þeir geta endað hvorum megin sem er og það er geggjuð stemning í húsinu. Allir að berjast á fullu, leikmenn og áhorfendur. Svo endar þetta með einu marki. Þetta gerist ekki skemmtilegra. Þetta er skemmtilegasti tími ársins. Nú förum við heim og undirbúum okkur sem best fyrir næsta leik.“ 

Þið hafið orðið fyrir skakkaföllum eins og sjálfsagt öll liðin í deildinni. Þú ert sjúkraþjálfari. Er þá ekki brjálað að gera hjá þér í aukastörfum fyrir samherjana? 

„Við gerum allt sem við getum til að halda okkur í standi. Ég geri það sem ég get eins og öll hin í kringum liðið,“ sagði þessi frábæra stelpa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert