Þurfum að vera enn grimmari í næsta leik

Thea Imani Sturludóttir átti stórleik í Safamýrinni í dag.
Thea Imani Sturludóttir átti stórleik í Safamýrinni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valskonur eru einum leik frá því að leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik eftir góðan 28:22-sigur gegn Fram í Framhúsinu í Safamýri í dag. Gestirnir voru mest átta mörkum yfir og léku góðan handbolta, meðal annars þökk sé Theu Imani Sturludóttur sem skoraði níu mörk.

„Við náum sigri í dag gegn liði sem er gríðarlega erfitt að spila við. Þetta var frábært,“ sagði Thea í samtali við mbl.is strax að leik loknum en hún sagði það hafa verið lykilatriði að koma í veg fyrir að Framarar gætu sótt hratt.

„Við vorum fljótar að koma okkur til baka og það var mikilvægt fyrir okkur að enda sóknir á markskotum, til þess að við gætum komið okkur til baka. Framararnir eru svo rosalega fljótir og með leikmenn sem geta notfært sér hraðaupphlaup.“

Liðin mætast aftur á Hlíðarenda á miðvikudaginn en vinna þarf tvo leiki til að komast í úrslit og spila gegn annaðhvort KA/Þór eða ÍBV. „Þær eiga eftir að koma brjálaðar á Hlíðarenda og við þurfum bara að vera enn grimmari og vera tilbúnar í stóran slag,“ sagði Thea Imani við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert