Bjarki Már Elísson átti fínan leik og skoraði úr öllum skotum sínum fyrir Lemgo sem mátti þó þola 30:25-tap á heimavelli gegn Kiel í þýska handboltanum í dag.
Íslenski landsliðsmaðurinn er einn markahæsti leikmaður deildarinnar og hann skoraði níu mörk fyrir heimamenn í dag. Lemgo er í 10. sæti deildarinnar eftir 29. umferðir með 31 stig.
Þá vann Flensburg öruggan 36:20-sigur á Melsungen fyrr í dag. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg en Arnar Freyr Arnarsson lék í vörn Melsungsen og skoraði ekki mark. Guðmundur Guðmundsson þjálfar liðið.