ÍBV og Afturelding gerðu 27:27 jafntefli er liðin mættust í 21. og næst síðustu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í dag. Gestirnir leiddu í hálfleik en þeir gerðu þó jöfnunarmarkið rúmum 60 sekúndum fyrir leikslok. Eyjamenn nýttu ekki lokasókn sína og því fór sem fór.
Fannar Þór Friðgeirsson Sigtryggur Daði Rúnarsson gerðu fimm mörk hvor fyrir Eyjamenn. Bergvin Þór Gíslason var markahæstur með sjö mörk en Blær Hinriksson skoraði fimm. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði vel á kafla í leiknum en hann klukkaði samtals átta skot. Markverðir Eyjamanna vörðu samtals ellefu skot.
Einar Ingi Hrafnsson steig upp á lykilaugnablikum leiksins og átti þar góðar varnir sem stöðvuðu Eyjamenn, auk þess skoraði hann þrjú mörk úr sínum fjórum skotum.
Gestirnir byrjuðu ágætlega og þegar Brynjar fór að verja í markinu tóku þeir góða forystu, Brynjar varði þar fimm skot á einungis nokkrum mínútum og varð forystan mest fimm mörk í stöðunni 6:11. Gestirnir voru þar klaufar og misstu forystuna niður í eitt mark á einungis sex mínútum.
Heimamenn náðu loks forystunni á 40. mínútu leiksins en þá tóku þeir strax tveggja marka forystu og héldu eflaust margir að þeir myndu þá sigla fram úr eins og þeir hafa gert nokkrum sinnum í vetur.
Theodór Sigurbjörnsson fékk gullið tækifæri til að nánast tryggja Eyjamönnum sigur þegar þrjár mínútur voru eftir en hann var aleinn í hraðaupphlaupi, Brynjar Ingi varði þá sitt fyrsta skot í langan tíma og gaf Aftureldingu möguleika á að sækja eitthvað úr leiknum.
Dómarar leiksins þeir Ingvar Guðjónsson og Sigurjón Þórðarson áttu afleitan leik en þeir gáfu þjálfurum liðanna alltaf möguleika á að kvarta undan glórulausum dómum og lélegri leikstjórn þeirra. Það var leiðinlegt að horfa upp á það að gæði dómaranna væru svo langt á eftir gæðum leikmanna leiksins en það þarf þó ekki að koma á óvart enda leiknir sex leikir í Olísdeildinni í dag og geta góðu dómarapörin því miður ekki verið alls staðar.