Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var mjög ánægður með stigið sem hans menn unnu sér inn í Vestmannaeyjum í dag. Hans menn mættu þá ÍBV í 21. og næstsíðustu umferð Olísdeildar karla í handknattleik.
„Ætli við hefðum ekki þurft aðeins meiri markvörslu í seinni hálfleik til að taka stigin tvö hérna. Við spiluðum frábærlega í dag og vorum klaufar í stöðunni 11:6 þegar við vorum með yfirtölu, klikkum á víti og klúðrum skoti yfir völlinn. Hvernig við náðum að halda út seinni hálfleikinn og landa þessu stigi sem við þurftum var ég mjög stoltur af.“
Gunnar segir liðið hafa sett sér markmið um áramótin.
„Þegar skakkaföllin voru farin að hrynja yfir okkur settum við okkur markmið um að við ætluðum að koma okkur í úrslitakeppnina. Við náðum því markmiði í dag og er ég hrikalega stoltur af strákunum.“
Lið Aftureldingar hefur innan sinna raða marga mjög efnilega leikmenn í bland við reynslubolta, er þetta góð blanda að mati Gunnars?
„Þetta er góð blanda, ungu strákarnir hafa fengið mikinn skóla í vetur, þeim var hent í djúpu laugina og stóðu sig vel. Þeir hafa bætt sig mikið og þess vegna erum við að ná okkar markmiðum, þessir strákar hafa þroskast hratt og tekið framförum.“
„Við gleðjumst núna í einn dag yfir því að hafa náð okkar markmiði, að vera með í úrslitakeppninni. Það er Valsleikur næst og við seljum okkur dýrt þar.“
Úrslitakeppnin verður með nýju sniði, hvernig sér Gunnar hana fyrir sér?
„Þetta verður spennandi, við þurfum að sjá hvernig liðið mitt verður. Við misstum Guðmund Árna í dag, Þorstein Leó á móti KA og Gauta þar á undan. Við þurfum að sjá hvernig við náum að púsla okkur saman.“
Gunnar var síðan spurður að því hvernig honum fannst leikurinn dæmdur en þjálfarar beggja liða fengu gult spjald fyrir að kvarta undan dómgæslunni.
„Ég verð að skoða þetta aftur, það var mikil harka og mikið kvartað báðum megin. Ég held að við verðum bara að setjast niður og skoða þetta til að geta dæmt um það. Það er fullt af vafaatriðum alls staðar og harka báðum megin,“ sagði Gunnar en hann sagði að lokum engar líkur á að Arnór Freyr Stefánsson muni taka þátt í úrslitakeppninni með Aftureldingu en það eru slæmar fréttir fyrir Mosfellinga.