Stórsigur Fram dugði ekki

Andri Már Rúnarsson skoraði níu mörk fyrir Framara í dag.
Andri Már Rúnarsson skoraði níu mörk fyrir Framara í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afturelding varð rétt í þessu síðasta liðið til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni á Íslandsmóti karla í handknattleik er 21. og næstsíðasta umferðin var spiluð í dag.

Afturelding mætti ÍBV í Vestmannaeyjum og skildu liðin jöfn, 27:27, eftir að heimamönnum mistókst að skora sigurmark úr síðustu sókn leiksins. Bergvin Þór Gíslason var markahæstur gestanna með sjö mörk en þeir Fannar Þór Friðgeirsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson skoruðu báðir fimm fyrir ÍBV.

Fram vann Gróttu í Safamýrinni sannfærandi, 32:20, þar sem Andri Már Rúnarsson átti stórleik, skoraði níu mörk og Lárus Helgi Ólafsson var drjúgur í markinu, varði 15 af 33 skotum. Fram fer þar með upp í 20 stig og situr í 9. sæti en liðið getur ekki lengur komist í úrslitakeppnina. Til þess hefði Afturelding þurft að tapa en Mosfellingar eru með 23 stig í 8. sætinu.

FH styrkti stöðu sína í öðru sætinu með 30:25-útisigri gegn botnliði ÍR í Breiðholtinu. Einar Rafn Eiðsson var markahæstur Hafnfirðinga með sjö mörk. FH er í öðru sæti með 28 stig, níu stigum á eftir toppliði Hauka sem vann stórsigur á Selfyssingum.

Þá unnu Valsarar 31:27-heimasigur gegn KA og lyfta sér upp um nokkur sæti í kjölfarið. Þorgils Jón Svölu Baldursson var öflugur fyrir heimamenn á Hlíðarenda, skoraði sjö mörk úr sjö skotum en Árni Bragi Eyjólfsson var með 11 mörk fyrir gestina. Valur fer upp í 4. sæti deildarinnar og hefur nú 25 stig.

https://www.mbl.is/sport/handbolti/2021/05/24/selfoss_haukar_stadan_er_24_35/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert