Topplið Hauka vann stórsigur á Selfyssingum í næstsíðustu umferð Olísdeildar karla í handbolta á Selfossi í dag, 24:35.
Leikurinn fór mjög hægt af stað, Haukar skoruðu aðeins þrjú mörk á fyrstu átta mínútunum en Selfyssingar toppuðu það og skoruðu ekkert mark á sama kafla. Atli Ævar Ingólfsson kom þeim vínrauðu á blað á níundu mínútu leiksins og það virtist kveikja í heimamönnum sem jöfnuðu 3:3 á 12. mínútu leiksins. Það gerði Hergeir Grímsson með sínu 100. marki í deildinni í vetur.
Leikurinn var í járnum eftir það en á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks áttu Haukar frábæran 7:2 kafla og munurinn var orðinn sjö mörk í hálfleik, 9:16. Björgvin Páll Gústavsson gerði Selfyssingum mjög erfitt fyrir en hann varði tíu skot í fyrri hálfleik. Haukavörnin var mjög hreyfanleg og Selfyssingar neyddust ítrekað til þess að taka léleg skot sem Björgvin átti ekki í neinum vandræðum með.
Seinni hálfleikurinn var aðeins formsatriði fyrir Haukana, en það þarf jú að spila leikinn í 60 mínútur. Um hann miðjan var munurinn orðinn tíu mörk og allur vindur úr heimamönnum. Haukar héldu áfram að ógna úr öllum áttum. Orri Freyr Þorkelsson spilaði lítið í fyrri hálfleik en hann endaði markahæstur Hauka eftir frábæran seinni hálfleik og Selfyssingar máttu aldrei líta af Darra Aronssyni eða Guðmundi Braga Ástþórssyni, sem voru mjög ógnandi. Þá var Þráinn Orri Jónsson geysisterkur í hjarta varnarinnar.
Ekki bætti úr skák fyrir Selfyssinga að þeir fengu nánast enga markvörslu í seinni hálfleiknum. Vörnin var ágæt á köflum en sóknirnar strönduðu flestar á varnarmúr Hauka. Atli Ævar Ingólfsson var atkvæðamikill í fyrri hálfleiknum og Einar Sverrisson lét til sín taka í seinni hálfleiknum. Selfoss kláraði síðustu tíu mínútur leiksins leikinn á ungmennaliði sínum þar sem hinn 17 ára gamli Hans Jörgen Ólafsson gladdi augað með tveimur mörkum í sínum fyrsta meistaraflokksleik.
Haukar eru og verða í toppsæti deildarinnar en Selfyssingar eru í baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni. Það mun hins vegar ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni, því eftir leiki dagsins skilja tvö stig að liðin í þriðja og áttunda sæti deildarinnar. Selfyssingar eru nú í 6. sæti með 24 stig.
Mbl.is var í Hleðsluhöllinni á Selfossi í dag og má sjá það helsta úr leiknum í textalýsingu hér að neðan.