Aron Pálmarsson og liðsfélagar hans í handknattleiksliði Barcelona frá Spáni mæta Nantes frá Frakklandi í undanúrslitum Meistaradeildarinnar en dregið var í höfuðstöðvum EHF í Vín í dag.
Úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fer fram dagana 12.-13. júní í Lanxess-höllinni í Köln í Þýskalandi en í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast PSG frá Frakklandi og Aalborg frá Danmörku.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborgar en Aron mun ganga til liðs við Aalborg í sumar frá spænska stórliðinu.
Barcelona hefur farið mikinn í Meistaradeildinni í vetur og ekki tapað leik í keppninni en liðið vann örugga sigra gegn bæði Elverum frá Noregi í sextán-liða úrslitum keppninnar og gegn Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi í átta-liða úrslitunum.
Barcelona lék til úrslita í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð en tapaði með fimm marka mun fyrir Kiel í úrslitaleik í Köln, 33:28. Þetta verður í tíunda sinn á tólf árum sem Aron tekur þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar með liðum sínum.