Víkingur Reykjavík lagði Hörð frá Ísafirð í oddaleik liðanna í undanúrslitum umspilsins um laust sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í dag. Hafði Víkingur að lokum 39:32 sigur og er þar með komið í úrslit.
Víkingur vann fyrsta leikinn í Víkinni í síðustu viku eftir tvíframlengdan leik. Hörður vann svo heimaleik sinn á Ísafirði á laugardaginn og knúði þannig fram oddaleik.
Víkingur mætir annað hvort Fjölni eða Kríu í úrslitaleik um laust sæti í úrvalsdeildinni, en það kemur í ljós síðar í kvöld hvort liðið það verður.
Fjölnir og Kría eiga nefnilega sömuleiðis oddaleik í undanúrslitum umspilsins og hófst leikurinn í Grafarvogi í kvöld klukkan 19.30.