Aron leysir Björgvin Pál af hólmi

Aron Rafn Eðvarðsson og Björgvin Páll Gústavsson í landsleik.
Aron Rafn Eðvarðsson og Björgvin Páll Gústavsson í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson hefur gert þriggja ára samning við handknattleiksdeild Hauka. Hann leysir Björgvin Pál Gústavsson af hólmi en Björgvin gengur í raðir Vals eftir þetta tímabil. Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, staðfesti tíðindin við mbl.is.

Aron Rafn er uppalinn hjá Haukum og lék með liðinu þar til hann hélt út í atvinnumennsku árið 2013 þar sem hann lék með Guif í Svíþjóð, Álaborg í Danmörku og Bietigheim í Þýskalandi. 

Hann sneri aftur heim til Íslands en í raðir ÍBV árið 2017 þar sem hann varð þrefaldur meistari. Í kjölfarið samdi hann við Hamburg í Þýskalandi og svo Bietigheim á nýjan leik. 

Hinn 31 árs gamli Aron hefur leikið 84 landsleiki fyrir Íslands hönd. Þá varð hann Íslandsmeistari með Haukum árin 2008, 2009 og 2010. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert