KA/Þór krækti í oddaleik á heimavelli

KA/Þórskonur stíga sigurdans á gólfi íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum eftir leikinn …
KA/Þórskonur stíga sigurdans á gólfi íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

KA/Þór mætti til Vestmannaeyja og knúði fram oddaleik en liðið er nú í miðju einvígi við ÍBV um sæti í úrslitaleik Íslandsmótsins í handknattleik.

ÍBV vann fyrsta leikinn á Akureyri og hefði verið komið í úrslitaeinvígið með sigri í kvöld.

Norðankonur voru magnaðar í fyrri hálfleik og lögðu þar grunninn að sigri en liðið leiddi með sex marka mun, 12:6, þegar liðin gengu til búningsherbergja. Lokatölur voru síðan 24:21, KA/Þór í hag, eftir frábæran seinni hálfleik.

Fyrri hálfleikurinn var algjörlega eign gestanna, varnarleikurinn var engum líkur og sóknirnar snjallar. Eyjakonur fundu varla skotfæri fyrstu fimmtán mínútur leiksins en þar komu einungis tvö mörk inn í mark Matea Lonac sem var frábær.

Aldís Ásta Heimisdóttir sækir að vörn ÍBV í kvöld.
Aldís Ásta Heimisdóttir sækir að vörn ÍBV í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Vörnin hélt vel út hálfleikinn og voru Eyjakonur í stökustu vandræðum með að ná skotum á mark gestanna, þau sem rötuðu á markið voru flest varin af Mateu Lonac.

Síðasta skotið í fyrri hálfleik fór í netið og var markið dæmt gott og gilt, í 3 mínútur, en eftir mikil fundarhöld komust dómararnir og eftirlitsmenn að því að markið skyldi ekki standa. Það er rétt niðurstaða þar sem sjónvarpsupptökur sýndu að boltinn var ekki kominn yfir línuna áður en flautan gall.

Eyjakonur hófu seinni hálfleikinn frábærlega og minnkuðu muninn snemma í tvö mörk, þær fengu einnig tækifæri á að minnka muninn í eitt mark en það gekk ekki. Gestirnir nýttu sér það og juku muninn í fjögur mörk. Leikurinn hélt áfram að vera kaflaskiptur og náði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir að minnka muninn í eitt mark áður en KA/Þór jók muninn á ný í þrjú mörk.

Eyjakonur náðu á einhvern ótrúlegan hátt að vinna upp þriggja marka forskot KA/Þórs á þremur mínútum með mögnuðum varnarleik þar sem Harpa Valey Gylfadóttir var frábær og jafnaði hún leikinn þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Það var í fyrsta skiptið sem staðan var jöfn síðan í stöðunni 2:2.

Rakel Sara Elvarsdóttir, maður leiksins, skoraði síðan frábært mark sem kom gestunum yfir og Eyjakonur náðu aldrei að jafna sig eftir það. Gestirnir skoruðu síðan tvö mörk til viðbótar og unnu þriggja marka frábæran sigur.

ÍBV 21:24 KA/Þór opna loka
60. mín. Ásta Björt Júlíusdóttir (ÍBV) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert