„Þetta fór bara í fyrri hálfleik, við vorum lélegar, sérstaklega sóknarlega og það var engin markvarsla,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, eftir að liðið missti af tækifærinu til að sópa deildarmeisturum KA/Þór úr leik og um leið koma sér í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn sem ÍBV hefur ekki tekist vel yfir áratug í Íslandsmóti kvenna.
Var spennustig leikmanna of hátt?
„Ég held að það hafi verið of lágt, mér fannst þær vera daufar og ekki eins og við sáum þær í seinni hálfleik. Þar voru allar með blóðsprungin augu og allt svoleiðis, það var ekki þannig í fyrri. Við vorum á hælunum og ég veit ekki hvort að áhorfendur hafi hæpað þetta upp en við vorum allavega engan veginn að nýta okkur þessa orku sem var í húsinu,“ sagði Sigurður sem sagðist ekki hafa tekið hárblásarann í hálfleik.
„Við töluðum bara saman, ég var ekki með neinn hárblásara eða neitt, við vorum lélegar. Ég þurfti líka að líta í eigin barm og einhvern veginn þurftum við að leysa þetta. Þess vegna fórum við í tvær línur, við höfum ekki einu sinni æft það. Ég sagði við Hilmar að við ætluðum bara að taka fyrstu tíu mínúturnar í seinni þannig, það gekk mjög vel. Við fengum trú, Ásta og Hanna fengu meiri trú, þá kom vörnin inn í þetta, sem var geggjuð í restina. Harpa var frábær, en þetta eina frákast sem datt þeirra megin var munurinn,“ sagði Sigurður en Rakel Sara Elvarsdóttir, sem var frábær í leiknum, tók mikilvægt frákast og skoraði til að koma gestunum yfir á ögurstundu.
Eyjakonur minnkuðu muninn í tvö mörk áður en gestirnir juku hann aftur í fjögur, það forskot gufaði síðan upp á litlum sem engum tíma.
„Við tökum ranga skiptingu þarna, sem er okkur Himma að kenna. Þær voru einum færri á þeim kafla og það var rosalega dýrt. Þær komust þá í fjögur og héldu margir að þetta væri búið, þá var spítt í aftur,“ sagði Sigurður en hans lið jafnaði metin og ætlaði allt um koll að keyra í húsinu.
„Þetta var ógeðslega gaman, þetta er allt fólk sem ég elska, allir að gefa sig í þetta milljón prósent. Ég var að peppa upp áhorfendur og mér leið eins og ég væri á rokktónleikum. Þvílíkur hávaði og Riddararnir voru flottur, þetta var ógeðslega gaman en ekki nóg.
Hversu mikið langar Sigga að spila annan heimaleik fyrir framan þetta fólk?
„Ég er viss um að KA myndi vilja það, þetta er ógeðslega gaman. Þú sérð þetta ekkert í kvenna handboltanum, það langar alla í þetta. Þetta er miklu skemmtilegra en að vera í tómum húsum einhvers staðar, þær eiga þetta líka skilið. Þetta var geggjaður handbolta leikur og geggjuð stemning, svo kemur maður í þessi hús í bænum og það eru ekki 50 manns, það eru ekki foreldrar eða systkini einu sinni.“
„Þetta var ógeðslega gaman, ég er stoltur af áhorfendunum og stoltur af KA, ég vona að það verði ógeðslega margt í KA-heimilinu líka, því þar er líka fólk sem stendur með klúbbnum,“ sagði Sigurður sem sagðist ekki vita hvort Eyjamenn myndu fjölmenna í KA-heimilið á laugardaginn.
„Ég veit það ekki. Ég get ekki beðið fólk um að fylla aftur einhvern Fokker og verðum líka að fara gætilega í aurana. Vonandi fæ ég fullt af fólki með okkur en við sjáum til,“ sagði Sigurður sem er þó handviss um það að þetta einvígi sé ekki búið.
„Alls ekki, það var það eina sem ég sagði inni í klefa, þetta er sko ekki búið. Við unnum á útivelli og þær unnu á útivelli, ég skal lofa þér því að við komum þarna á Akureyri og við verðum sturlaðar.“