Þórsarar rændir sigri

Leikmenn þakka fyrir leikinn í leikslok. KA mætir Val í …
Leikmenn þakka fyrir leikinn í leikslok. KA mætir Val í úrslitakeppninni en Þór fellur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þór frá Akureyri kvaddi Olís-deildina í handbolta karla í kvöld. Þórsarar spiluðu gegn grönnum sínum í KA og eins og við mátti búast varð úr hörkuslagur með mikilli dramatík undir lokin. 

KA sat í fimmta sæti fyrir leik en gat komið sér upp um eitt eða tvö sæti með sigri en gat einnig dottið niður í áttunda sætið ef öll úrslit yrðu þeim í óhag. 

Eftir mjög jafnan leik sættust liðin á skiptan hlut og lauk leik með 19:19-jafntefli. 

Liðin byrjuðu leikinn á einhvers konar spaugi og skoruðu ekki mark í tíu mínútur. Mikið var um asnaleg mistök, skot framhjá en einnig frábærar markvörslur. Karolas Stropus braut loks ísinn eftir nákvæmlega tíu mínútur. Eftir það losnaði um markastífluna og liðin skiptust á að hafa forustu. Þór var yfir í hálfleik 11:9. 

Markverðirnir Nicholas Satchwell hjá KA Jovan Kukobat hjá Þór voru báðir með níu varin skot í hálfleik og eitt víti hvor. 

KA var að elta lengi vel í seinni hálfleiknum og Sigurður Kristinn Skjaldarson var allt í öllu hjá Þór. Jovan hélt áfram að verja vel og tók víti á ögurstundu í stöðunni 14:13. Hann varði svo aftur og aftur þegar KA reyndi að komast yfir. Þórsarar voru alveg lens í sóknum sínum eftir að Sigurður Kristófer þurfti að fara meiddur af velli. 

KA komst yfir þegar tíu mínútur voru eftir og svo var jafnt á öllum tölum til loka. Jovan varði eins og berserkur og át hornamenn KA hvern á fætur öðrum. Þór fékk síðustu sókn leiksins og þegar stutt var eftir þá náði Þórður Tandri Ágústsson að skora en eitthvað var búið að dæma svo markið fékk ekki að standa. Við það sauð upp úr hjá stuðningsmönnum Þórs og þurfti að vísa einum þeirra úr húsi.  

KA-menn geta prísað sig sæla með þetta jafntefli en margt í leik liðsins í kvöld var ekki til útflutnings. Varnarleikur liðsins var í ágætu standi og markvarslan en ákvarðanatakan í sókn og skotnýting var skelfileg. Jovan Kukobat var frábær í marki Þórs og varði hann 20 skot, þar af tvö víti. Sigurður Kristófer var besti sóknarmaður Þórsara en því miður þá varð hann fyrir meiðslum og þurfti að hætta leik. 

Hjá KA ber að hrósa Sigþóri Gunnari Jónssyni, sem kom öflugur til leiks eftir að hafa verið í frosti stærstan hluta tímabilsins. Nicholas var svo með fjórtán varin skot. 

KA 19:19 Þór opna loka
60. mín. Þór tekur leikhlé Það eru 25 sekúndur eftir af leiknum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert