Árni Bragi Eyjólfsson, örvhentur hornamaður og skytta KA, varð markakóngur úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildinni, á nýafstöðnu tímabili. Skoraði hann 163 mörk í 22 leikjum, sem gerir 7,4 mörk að meðaltali í leik.
Handbolti.is greinir frá. Rétthenti hornamaðurinn Hákon Daði Styrmisson, sem leikur með ÍBV og var lengi vel efstur á listanum, varð annar með 158 mörk.
Árni Bragi, sem er fyrsti markakóngur KA í efstu deild í 16 ár, mun söðla um í sumar og snúa aftur til Aftureldingar, þar sem hann hóf meistaraflokksferil sinn.
Hákon Daði er sömuleiðis á förum, en hann er á leið í atvinnumennsku þar sem hann gengur til liðs við Íslendingalið Gummersbach í Þýskalandi, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar.
Deildinni er lokið en átta liða úrslit Íslandsmótsins fara í hönd næstkomandi mánudagskvöld.
KA mætir þar Val í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni á þriðjudagskvöld þar sem Árni Bragi verður í eldlínunni, en hann gengur til liðs við Aftureldingu að úrslitakeppninni lokinni.
ÍBV mætir svo FH á mánudagskvöld og gildir það sama um Hákon Daða, hann fer til Þýskalands þegar úrslitakeppninni lýkur.