Handknattleiksdeild Fram hefur tilkynnt að örvhenta skyttan og hornamaðurinn Tinna Valgerður Gísladóttir sé gengin til liðs við félagið. Kemur hún frá uppeldisfélagi sínu Gróttu og semur til tveggja ára.
Tinna Valgerður var fjórða markahæst í fyrstu deild kvenna, Grill 66-deildinni, á nýafstöðnu tímabili með 100 mörk í leikjum.
Fram lenti í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, Olísdeildinni, á tímabilinu og féll úr leik í undanúrslitum úrslitakeppni Íslandsmótsins með tveimur tapleikjum gegn Val.
Grótta lék við HK um laust sæti í úrvalsdeildinni en laut þar í lægra haldi gegn HK, 1:2 í þremur leikjum.