Þýska handknattleiksliðið Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, fékk í kvöld skell í toppslag þýsku B-deildarinnar þegar það sótti N-Lübbecke heim.
Heimamenn í N-Lübbecke sigruðu 35:27 eftir að hafa verið komnir ellefu mörkum yfir seint í leiknum. Elliði Snær Viðarsson náði ekki að skora fyrir Gummersbach að þessu sinni.
Tapið dregur nokkuð úr möguleikum Gummersbach á að vinna sér sæti í efstu deild. N-Lübbecke er með 50 stig og á fjóra leiki eftir. Hamburg er með 48 stig, og er með forystu í leik sínum gegn Eisenach sem nú stendur yfir en Gummersbach er með 47 stig og á fimm leiki eftir. Tvö efstu liðin vinna sér sæti í 1. deildinni.