KA/Þór og ÍBV áttust við í oddaleik í dag til að skera úr um hvort liðið færi í úrslitaleikina um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta kvenna. Spilað var á Akureyri og voru fjölmargir stuðningsmenn Eyjakvenna mættir þeim til stuðnings. Stemningin á leiknum var engu lík og leikurinn gríðarlega jafn og spennandi. Fór hann í framlengingu eftir 25:25 stöðu í leikslok. KA/Þór kreisti fram sigur 28:27 eftir hádramatískan og frábæran handboltaleik.
Langt fram í fyrri hálfleik var munstrið í leiknum þannig að KA/Þór komst yfir en ÍBV jafnaði. Þetta gekk svona upp í stöðuna 7:7. ÍBV komst svo yfir 8:7 og var það í eina skiptið í hálfleiknum sem Eyjakonur voru yfir. KA/Þór tók leikhlé og kom sér aftur í forustu. Staðan var 12:10 í hálfleik eftir að Eyjakonur höfðu ekki náð marki í lokasókn sinni.
Besti leikmaður úrslitaleikjanna, Rakel Sara Elvarsdóttir, var að spila vel og skoraði hún fjögur mörk í hálfleiknum og stal tveimur boltum. Heimakonur sóttu mikið út í hornin þar sem þeirra konur voru oft með gott pláss. Matea Lonac varði vel en hún var full æst í að sækja mörk úr hraðaupphlaupum og tapaði þannig boltanum í tvígang hið minnsta.
Skyttur ÍBV voru ekki alveg að finna sig en línuspil liðsins gekk vel þar sem Elísa Elíasdóttir var oft laus. Marta Wawrzynkowska í markinu var öflug og besti leikmaður liðsins í fyrri hálfleik.
Stærstan hluta seinni hálfleiksins var ÍBV að elta og var forskot KA/Þórs eitt til þrjú mörk. Brottrekstur Mörthu Hermannsdóttur þegar tíu mínútur voru eftir gaf ÍBV færi á að jafna og komast yfir. Þrjú mörk frá ÍBV breyttu stöðunni úr 19:17 í 19:20 og eftir það var jafnt á öllum tölum og liðin skiptust á að komast yfir. Á lokamínútunni, í stöðunni 25:25, klúðraði Ásdís Guðmundsdóttir víti fyrir KA/Þór og ÍBV fékk fjörtíu sekúndur í lokasóknina. Hún nýttist ekki en Ásta Björt Júlíusdóttir átti skot í slá og niður út aukakasti eftir að leiktíminn var liðinn. Liðin skildu því jöfn 25:25 og framlengingu þurfti.
Hvort lið skoraði eitt mark í fyrri hálfleik framlengingar. Sóknarleikur beggja liða var verulega hægur og hikandi enda mikið undir. Í Seinni hálfleiknum komst KA/Þór yfir og þær hældu haus á lokamínútunni þar sem ÍBV sótti hart að þeim. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir átti lokaskotið en það fór yfir markið.
KA/Þór fer í lokaúrslitin og mætir þar Val. Fyrsti leikur þeirrar rimmu verður á miðvikudaginn í KA-heimilinu.