Deildarmeistarar Hauka gerðu afar góða ferð í Mosfellsbæinn þegar þeir unnu auðveldan 35:25 sigur gegn Aftureldingu í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í kvöld.
Deildarmeistarar Hauka hófu leikinn af krafti og voru komnir í 4:1 forystu eftir tæpar fjórar mínútur. Gestirnir virtust þar með ætla að sigla fram úr Mosfellingum eins og þeirra er von og vísa en heimamenn unnu voru ekki á þeim buxunum og héldu Haukum nálægt sér.
Forysta Hauka var þó aldrei minni en tvö mörk. Eftir að Afturelding minnkaði muninn í 8:6 um miðjan hálfleikinn hertu Haukar tökin og voru komnir fimm mörkum yfir, 12:7, eftir um 20 mínútna leik.
Gestirnir þar með komnir í nokkuð þægilega stöðu og komust mest sjö mörkum yfir í fyrri hálfleiknum, 16:9, þegar skammt var eftir af honum. Heimamenn í Aftureldingu löguðu stöðuna örlítið og var staðan í leikhléi 17:11.
Markverðir beggja liða voru í miklu stuði í fyrri hálfleiknum þar sem Björgvin Páll Gústavsson í marki Hauka varði 9 skot og Brynjar Vignir Sigurjónsson í marki Aftureldingar 7 skot.
Í síðari hálfleik reyndu liðsmenn Aftureldingar hvað þeir gátu að koma sér inn í leikinn, sérstaklega til að byrja með, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Komust heimamenn aldrei nær en sex mörkum frá ógnarsterkum Hafnfirðingum í síðari hálfleiknum.
Haukar komust mest í 11 marka forystu, 31:20, þegar um sjö mínútur lifðu leiks.
Deildarmeistararnir unnu að lokum þægilegan 10 marka sigur, 35:25.
Leikurinn var afar grófur og mikið um stympingar. Bæði lið voru með menn af velli í samtals 16 mínútur hvort. Þar á meðal fékk Stefán Rafn Sigurmannsson þrjár brottvísanir og þar með rautt spjald.
Liðin mætast í síðari leiknum í átta liða úrslitunum á Ásvöllum í Hafnarfirði næstkomandi fimmtudag. Það lið sem hefur betur samanlagt í tveimur leikjum kemst svo í undanúrslitin og Haukar eru því í vænlegri stöðu.