Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur með 10 mörk, þar af sjö úr vítaköstum, í öruggum 35:25 sigri Hauka gegn Aftureldingu í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í Mosfellsbæ í kvöld. Hann skrifaði þó sigurinn fyrst og fremst á liðsheildina.
„Ég er fyrst og fremst rosalega ánægður með sigurinn. Þetta var góður liðssigur, það voru allir að leggja inn í kvöld og við uppskárum eins og við sáðum. Við erum búnir að æfa vel síðustu misseri, síðasta vika var góð æfingavika, og vorum flottir í deildinni,“ sagði Orri Freyr í samtali við mbl.is eftir leik.
Leikurinn var ansi grófur og eyddu leikmenn beggja liða 16 mínútum utan vallar. Stundum kom til stympinga. „Það voru pústrar og árekstrar í þessum leik, nokkuð margir. Kannski er hægt að kalla hann grófan en mér fannst bara góð harka í leiknum.
Það var ekki neinn sem slasaði sig og að mínu mati voru engin fólskuleg brot, bara svona eðlileg handboltabrot þar sem menn eru kannski aðeins of ákafir og fá því tvær mínútur en heilt yfir var þetta bara harður og skemmtilegur handboltaleikur,“ sagði hann.
Síðari leikurinn fer fram á Ásvöllum á fimmtudaginn og staðan, 10 marka forysta, afar vænleg fyrir Hauka. Orri Freyr sagði þó ekkert í höfn ennþá.
„Þetta er bara sama klisjan, það geta komið sveiflur í þessum handboltaleikjum. Við þurfum bara að mæta klárir til leiks eins og við gerðum í dag. Það er það eina í stöðunni, að einbeita okkur að næsta leik, þessi er búinn. Það getur allt gerst í þessu, Afturelding er hörkulið en við vorum tíu mörkum betri í kvöld,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.