FH-ingar í lykilstöðu eftir jafntefli

Ásbjörn Friðriksson sækir að Eyjamönnum í Vestmannaeyjum í kvöld.
Ásbjörn Friðriksson sækir að Eyjamönnum í Vestmannaeyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Úrslitakeppni Íslandsmótsins í handknattleik fór af stað í kvöld með leik ÍBV og FH, sem fram fór í magnaðri stemningu í Vestmannaeyjum. Leikið er með nýju fyrirkomulagi, leiknir eru tveir leikir og ráðast úrslit af markatölu liða í þeim tveimur leikjum.

FH-ingar sóttu mikið markajafntefli til Vestmannaeyja og dugir þeim því jafntefli á fimmtudaginn í Kaplakrika til að komast áfram, svo framarlega sem liðin skori ekki fleiri en 30 mörk hvort.

Einar Rafn Eiðsson átti flottan leik í liði gestanna og sýndi stáltaugar á vítalínunni í þau skipti sem hann var sendur þangað af góðum dómurum leiksins. Hann skoraði níu mörk úr sínum ellefu skotum, þar af voru fimm af vítalínunni. Að auki lagði hann upp fimm mörk fyrir félaga sína.

Hákon Daði Styrmisson skoraði níu mörk í liði heimamanna úr tíu skotum en hann skoraði einnig fimm af vítalínunni. Dagur Arnarsson lagði upp sjö mörk fyrir heimamenn og skoraði fjögur mörk, flest á stuttum kafla í seinni hálfleik.

Heimamenn leiddu mest allan leikinn og voru gestirnir að elta. Markvarsla liðanna var lítil sem engin og varði Petar Jokanovic markvörður Eyjamanna ekki skot fyrr en á 60. mínútu en Björn Viðar Björnsson varði fimm. Birkir Fannar Bragason byrjaði leikinn fyrir gestina en fljótlega var Phil Döhler settur inn en óvíst var með þátttöku hans í einvíginu, hann varði sjö skot og flest þeirra á mjög mikilvægum tímapunktum í leiknum.

Gestirnir tóku forystuna einungis einu sinni í leiknum, það var í stöðunni 0:1 en þrátt fyrir það eru þeir sáttari með úrslit leiksins. Eyjamenn létu henda sér oft útaf og þurftu að sitja af sér 10 refsimínútur á móti 4 hjá gestunum.

Seinni leikur liðanna fer fram á fimmtudaginn og verður það eflaust hin mesta skemmtun fyrir þá áhorfendur sem geta tryggt sér miða á þann leik.

ÍBV 31:31 FH opna loka
60. mín. ÍBV tapar boltanum Ólögleg blokkering dæmd á Kára.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka