Leikur áfram í úrvalsdeildinni

Steinunn Hansdóttir skorar í landsleik.
Steinunn Hansdóttir skorar í landsleik. Ljósmynd/Robert Spasovski

Steinunn Hansdóttir, landsliðskona í handknattleik, leikur áfram í dönsku úrvalsdeildinni þó lið hennar Vendsyssel hafi fallið úr deildinni í vor.

Steinunn hefur samið við Skanderborg fyrir næsta tímabil en hún hefur áður leikið með félaginu, en einnig með Horsens og Gudme í Danmörku og Selfossi hér á landi.

Skanderborg hafnaði í þrettánda og næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar í vetur, næst fyrir ofan Vendsyssel sem féll, en hélt síðan sæti sínu eftir fallkeppni neðstu liðanna og endaði að lokum í ellefta sæti.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður hefur einnig yfirgefið Vendsyssel og leikur með nýliðum Ringköbing í úrvalsdeildinni næsta vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka