Ræðst á smáatriðum

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, á hliðarlínunni í dag.
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, var sáttur með jafnteflið en sagði sitt lið hafa mætt til að sækja sigur á móti Eyjamönnum í kvöld. Hans lið náði forystunni einungis einu sinni í leiknum og var það með fyrsta marki leiksins, þrátt fyrir það eru hans menn í lykilstöðu fyrir seinni leikinn sem fram fer á fimmtudag.

„Við komum eftir sigrinum, en jafntefli er staðan og við vinnum út frá því,“ sagði Sigursteinn en hann var ekki sammála að FH-ingum hafi gengið illa undanfarin ár í Vestmannaeyjum.

„Við unnum nú síðast í vetur hérna en við erum bara í núinu og þetta er staðan núna. Við pælum ekki í neinu öðru,“ sagði Sigursteinn en FH-ingar hafa tapað hverjum mikilvæga leiknum á fætur öðrum í Eyjum en núna var jafnteflið niðurstaðan.

Gestirnir voru að elta allan leikinn en höfðu samt kraftinn í að jafna metin undir lokin.

„Við erum í góðu formi og það er karakter í okkar liði, við vissum það að þetta yrði gríðarlega erfitt en þetta er staðan núna og við mætum klárir á fimmtudag.“

Sigursteinn nýtti breidd liðs síns vel í dag og sýndu hans menn að þeir myndi alvöru lið og liðsheild.

„Við erum með mjög góða breidd og það komu menn með mikil gæði og orku af bekknum sem ég er ánægður með.“

ÍBV og FH mættust um daginn, í dag og svo aftur á fimmtudag. Eru einhverjir möguleikar fyrir þjálfarana að brydda upp á nýjungum á milli leikja?

„Þetta eru einhverjir smáir díteilar, annars þekkja liðin hvort annað mjög vel, þetta ræðst allt á smáatriðum.“

Steini segist eiga von á svipuðum leik á fimmtudag og vildi koma nokkrum skilaboðum áleiðis til stuðningsmanna FH.

„Það var frábært að koma til Eyja í dag, þetta eru frábærir stuðningsmenn, ég vil að sjálfsögðu sjá FH-inga fylla Krikann eins og leyfilegt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka