Selfoss vann í kvöld 26:24-sigur á Stjörnunni í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Liðið sem vinnur samanlagt eftir tvo leiki fer í undanúrslit.
Selfyssingar fóru betur af stað og komust í 2:0 strax í upphafi leiks. Selfoss náði mest þriggja marka forskoti í hálfleiknum 9:6, en þar á undan skoraði Stjarnan ekki í tæpar tíu mínútur. Með góðum varnarleik og markvörslu tókst Stjörnunni hinsvegar að halda í forskotið og svo bæta í það.
Að lokum munaði tveimur mörkum á liðunum í hálfleik, 12:10. Stjarnan gat helst þakkað Adam Thorstenssen í markinu fyrir að munurinn væri ekki meiri en hann varði oft á tíðum virkilega vel og alls sjö skot í hálfleiknum. Vilius Rasimas gerði slíkt hið sama fyrir Selfoss.
Liðin skiptust á að skora í upphafi seinni hálfleiks, sem hentaði Selfyssingum augljóslega mun betur. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var munurinn þrjú mörk, 21:18.
Stjarnan neitaði hinsvegar að gefast upp og með góðum kafla tókst heimamönnum að jafna í 24:24 þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Selfoss skoraði hinsvegar tvö síðustu mörkin og tryggði sér sætan sigur.
Seinni leikurinn fer fram á Selfossi næstkomandi föstudag.