Jónatan Magnússon, þjálfari KA í Olís-deildinni í handbolta, hefur mikla trú á að hans menn geti komist áfram í fjögurra liða úrslit Íslandsmótsins, þrátt fyrir fjögurra marka tap, 30:26 á heimavelli í kvöld. Valsmenn voru tíu mörkum yfir þegar átta mínútur voru eftir en KA-menn blésu í herlúðra og löguðu stöðu sína heilmikið fyrir síðari leikinn sem spila á að Hlíðarenda á föstudag kl. 20.
Það voru plúsar og mínusar í þessu hjá ykkur. Aðalplúsinn að minnka forskot Vals úr tíu mörkum í fjögur fyrir leikslok. Þið eruð því enn þá með í þessu einvígi.
„Ég er sammála því. Við gerðum vel úr þeirri stöðu sem við vorum komnir í, vitandi hvernig fyrirkomulagið á þessari úrslitakeppni er. Ég gef kredit á mína menn, hvernig við náðum að koma okkur úr vonlausri stöðu í þá stöðu að geta komist áfram.“
Þetta er allt öðruvísi en áður þar sem það skipti engu máli hvað menn töpuðu stórt og gáti gefið leikina frá sér í vondri stöðu. Nú skiptir hvert mark máli.
„Já hvert einasta mark. Við unnum lokakaflann 8:2 og það gefur okkur von. Við höfum verið undir í nokkrum leikjum í vetur og komið til baka. Nú höfum við 60 mínútur til að snúa þessu og ég tel það alveg gerlegt. En þá þurfum við að spila betur og þá sérstaklega í uppstilltum sóknarleik. Við réðum ekki almennilega við það sex á sex lengi framan af. Nú förum við bara í að bæta það sem var ekki nógu gott og finna leiðir til að gera betur í næsta leik. Það var ekki fyrr en við vorum komnir í erfiða stöðu að við fórum að keyra almennilega á þá eins og ég vil að við gerum, af áræðni. Við vorum pínu flatir fram að því.“
Þú ert einn úr Íslandsmeistaraliði KA frá 2002. Þá var KA í afar vondum málum eftir tap í tveimur fyrstu leikjunum og Valsmenn þurftu að kæla kampavínið þrisvar en fengu aldrei að drekka það. Þú þekkir þessa stöðu því betur en margir.
„Það sýnir að það er allt hægt í íþróttum. Það er tvennt sem við þurfum að gera til að geta komist áfram. Annað er að bæta okkar leik en hitt er að hafa trú á að það sé gerlegt að vinna Val með fjórum eða fimm mörkum. Alveg þangað til föstudagsleikurinn er búinn þá hef ég þá trú á hópnum sem ég er með að við getum það. Ég stend og fell með því. Við höfum spilað marga góða leiki í vetur og af hverju ekki á föstudaginn“ sagði vígreifur Jónatan að lokum.