Valur Íslandsmeistari eftir öruggan sigur í Hafnarfirði

Valur er Íslandsmeistari í handknattleik karla eftir afar öruggan 34:29 sigur gegn Haukum í síðari leik liðanna á Ásvöllum í kvöld. Valur vann fyrri leikinn á heimavelli með þremur mörkum og einvígið því samanlagt með átta mörkum.

Valsmenn mættu gífurlega vel stemmdir til leiks og var ljóst að spennustigið var hárrétt stillt hjá gestunum á meðan heimamenn í Haukum voru heillum horfnir. Valsmönnum gekk afar vel í sókninni og Martin Nagy varði þrjú skot snemma leiks.

Gestirnir voru komnir í þriggja marka forystu, 4:1, eftir tæplega fimm mínútna leik. Aroni Kristjánssyni leist ekkert á blikuna og tók því leikhlé skömmu síðar. Lítið lagaðist þó við það þar sem Haukar töpuðu boltanum í sókninni og Valsmenn refsuðu með marki hinum megin, 5:1.

Valsmenn voru áfram með undirtökin og náðu mest fimm marka forystu um miðbik hálfleiksins, 11:6.

Haukar tóku í kjölfarið aðeins við sér og minnkuðu muninn í tvö mörk, 12:10. Nær komust heimamenn ekki í fyrri hálfleiknum og þegar skammt var eftir af honum voru Valsmenn aftur komnir í fjögurra marka forystu, 17:13.

Haukar löguðu þó stöðuna ögn áður en flautað var til leikhlés og staðan í hálfleik 18:15.

Vörn Valsmanna var gífurlega sterk, sem gerði það að verkum að Haukar voru þvingaðir í feilsendingar trekk í trekk. Á sama tíma fengu Haukar litla sem enga markvörslu í hálfleiknum.

Haukar byrjuðu síðari hálfleikinn betur og náðu að minnka muninn niður í eitt mark, 20:19. Eftir það tóku Valsmenn hins vegar öll völd að nýju og náðu fimm marka forystu, 26:21, þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður.

Nagy hóf síðari hálfleikinn eins og þann fyrri og varði þrjú skot snemma í honum en bætti um betur og hóf að skella í lás seinni hluta hálfleiksins.

Eftirleikurinn reyndist því auðveldur og náðu Valsmenn mest sex marka forystu, 30:24, eftir tæplega 50 mínútna leik.

Valsmenn unnu að lokum frábæran 34:29 sigur og liðið þar með Íslandsmeistari á afar sannfærandi hátt.

Anton Rúnarsson sækir að Hafnfirðingum að Ásvöllum í kvöld.
Anton Rúnarsson sækir að Hafnfirðingum að Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varnarleikur Hauka var slakur í leiknum og markvarsla fékkst ekki frá Björgvini Páli Gústavssyni fyrr en seint og síðar meir, þegar leikurinn var þegar tapaður.

Títtnefndur Nagy steig hins vegar upp á mikilvægum augnablikum og varði samtals 12 skot.

Anton Rúnarsson stýrði hröðum sóknarleik Valsmanna í leiknum af miklum myndarbrag og var markahæstur með 10 mörk. Hann skoraði auk þess 9 mörk í fyrri leiknum enda var hann í leikslok valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.

Samherjar hans Vignir Stefánsson og Agnar Smári Jónsson voru sömuleiðis öflugir og skoruðu sjö mörk hvor í leiknum í kvöld.

Haukar 29:34 Valur opna loka
60. mín. Agnar Smári Jónsson (Valur) fiskar víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert