Pásurnar gerðu þeirri bestu gott

Rut Jónsdóttir fór drekkhlaðin verðlaunum heim af Grand hótel og …
Rut Jónsdóttir fór drekkhlaðin verðlaunum heim af Grand hótel og er hér með hluta þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Rut Jónsdóttir sópaði að sér verðlaunum fyrir frammistöðu sína með KA/Þór á nýafstöðnu Íslandsmóti í handknattleik. 

HSÍ veitti verðlaun í dag í samræmi við úrslit í kjöri leikmanna og var Rut valin besti leikmaður Olís-deildarinnar og besti sóknarmaðurinn. Var hún einnig valin best af þjálfurum liðanna í deildinni og fékk Sigríðarbikarinn fyrir þá viðurkenningu.

„Við erum mörg frá Akureyri sem vorum verðlaunuð og ótrúlega gaman að vera hluti af þessu. Þetta er mjög sætt eftir frábært tímabil,“ sagði Rut þegar mbl.is ræddi við hana að verðlaunaafhendingu lokinni á Grand hótel í dag. „Ég er mjög ánægð og stolt af þessu enda er skemmtilegt að fá viðurkenningu fyrir eitthvað sem maður leggur mikinn tíma í.“

Eftir mörg ár í Danmörku ákvað Rut að flytja heim og varð Akureyri fyrir valinu en Rut er alin upp í HK. Hún sér væntanlega ekki eftir þeirri ákvörðun. 

„Við erum rosaánægð með þá ákvörðun og ég held að þetta hafi verið rétt skref. Okkur líður öllum svo vel og ofan á það hafði ég ekki upplifað áður að verða Íslandsmeistari. Mjög gaman að hafa náð því áður en ferillinn tekur enda, einhvern tíma. Þetta er frábrugðið því sem við höfum kynnst áður en svo lengi sem við höfum gaman að boltanum og fjölskyldunni líður vel þá er þetta frábært,“ sagði Rut en unnusti hennar, Ólafur Gústafsson, er í sömu sporum því hann er leikmaður með KA. 

„Við verðum áfram á Akureyri næsta vetur. Það er frágengið en eftir það vitum við ekki hvað við gerum. Okkur líður vel á Akureyri en þegar maður er með barn þá hugsar maður um fleira en sjálfan sig.“

Annars konar hlutverk en í Danmörku

Rut segist ekki eiga auðvelt með að tala lengi um sig sjálfa en spurð hvers vegna hún hafi leikið jafn vel í vetur og raun ber vitni telur hún að það hafi gert henni gott að komast í minna álag en er í Danmörku. 

„Ég hef alveg glímt við meiðsli á mínum ferli. Það hefur oft verið erfitt þegar maður getur ekki verið með í öllum leikjum. En mér leið vel á síðasta tímabili. Hér er álagið öðruvísi og færri leikir spilaðir. Svo stoppaði deildin oftar en einu sinni [vegna heimsfaraldursins] og það gerði mér bara gott. Ég er einnig í annars konar hlutverki hér inni á vellinum og hef haft ánægju af því,“ sagði Rut en hún hefur lengi verið þekkt fyrir góðan leikskilning, gegnumbrot og stoðsendingar. Eftir að hún kom heim þá þarf hún hins vegar að skjóta meira á markið en hún gerði með toppliðum í Danmörku. 

Rut fagnar marki í úrslitarimmunni gegn Val.
Rut fagnar marki í úrslitarimmunni gegn Val. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Já, miklu meira. Oft hefur verið sagt við mig að ég mætti skjóta meira á markið en nú tók ég það til mín. Þegar ég var að spila með skyttum sem voru 1,90 á hæð þá voru þær oft að ljúka sóknunum. En nú er ég í aðeins öðru hlutverki og mörkin verða kannski fleiri. Þegar ég spilaði erlendis snerist mitt hlutverk meira um að gera aðra góða og koma samherjunum í betri stöðu á vellinum.“

KA/Þór tekur þátt í Evrópukeppni

Fyrir liggur að Íslandsmeistararnir í KA/Þór munu taka þátt í Evrópukeppni á næsta tímabili. 

„Tekin hefur verið ákvörðun um það og við munum hefja keppni í haust. Því fylgir mikil tilhlökkun en í liðinu eru margir leikmenn sem ekki hafa fengið tækifæri til að spila í Evrópu. KA/Þór ætlaði að vera með á síðasta tímabili og svekkelsið var mikið þegar í ljós kom að það væri ekki hægt vegna Covid. Það ætti að gefa okkur auka hvatningu að taka þátt í Evrópukeppni og spila á móti erlendum liðum. Svo verður bara að koma í ljós hvar við stöndum gagnvart liðum í öðrum löndum,“ sagði Rut í samtali við mbl.is í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert