Handknattleikskonan Hanna Guðrún Stefánsdóttir hefur framlengt samning sinn við Stjörnuna um tvö ár. Landsliðskonan fyrrverandi er 42 ára og verður því samningsbundin þar til hún verður 44 ára.
Hanna ólst upp í Haukum og spilaði með þeim til ársins 2003, þá tók hún stökkið í atvinnumennskuna og fór til Holstebro á Jótlandi. Hanna fór aftur í Hauka ári síðar og var með Hafnarfjarðaliðinu til 2010. Þá skipti hún yfir í Stjörnuna og hefur spilað í Garðabæ alla tíð síðan.
Hanna varð Íslandsmeistari 1996 1997, 2001, 2002 og 2005, bikarmeistari 1997, 2003, 2006, 2007, 2016 og 2017 og deildarmeistari 2002, 2005, 2009, 2014 og 2017.
Hanna var valin leikmaður ársins 2003, 2005 og 2009, markahæsti leikmaðurinn 2003, 2005 og 2009 og hlaut háttvísiverðlaunin 2008 og 2009. Hún var valin handknattleikskona Íslands 2009 og valin Íþróttakona Hafnarfjarðar árið 2009.
Hanna hefur leikið næstflesta landsleiki fyrir Íslands hönd, eða 142 leiki, og skorað næstflest mörk, 458 talsins. Hún hefur farið á öll þrjú stórmótin sem íslenska landsliðið hefur leikið á.