Frá Ólympíuleikunum til Ísafjarðar

Kenya Kasahara, til vinstri, reynir að stöðva Aron Pálmarsson í …
Kenya Kasahara, til vinstri, reynir að stöðva Aron Pálmarsson í leik Íslands og Japan á HM 2029 í München. AFP

Ísfirðingar ætla sér stóra hluti í 1. deild karla í handknattleik á næsta vetri en þeir hafa nú samið við þrjá erlenda leikmenn sem koma til þeirra fyrir komandi keppnistímabil.

Handknattleiksdeild Harðar skýrði frá því á Facebook-síðu sinni í dag að Spánverjinn Mikel Amilibia, Ungverjinn Levente Morvai og japanski landsliðsmaðurinn Kenya Kasahara væru allir búnir að semja við félagið. Tveir þeir fyrrnefndu til tveggja ára.

Amilibia er 23 ára rétthent skytta sem hefur leikið 29 leiki fyrir yngri landslið Spánar og 26 leiki fyrir U21 ára landsliðið.

Morvai er 21 árs gamall rétthentur hornamaður eða miðjumaður og í tilkynningunni segir að hann hafi verið meðal efnilegustu leikmanna Ungverja á sínum tíma og komi til Harðar til að ná sér á strik aftur.

Kasahara er japanskur landsliðsmaður sem spilar næstu tvær vikurnar undir stjórn Dags Sigurðssonar með liði Japan á Ólympíuleikunum í Tókýó og lék m.a. með því á síðasta heimsmeistaramóti. Hann er 33 ára línumaður, hávaxinn og sterkur varnarmaður og kemur frá japanska liðinu Toyota Auto Body.

Lið Harðar endaði í 8. sæti 1. deildar karla á síðasta tímabili en veitti síðan Víkingum harða keppni í undanúrslitum umspilsins um sæti í úrvalsdeildinni þar sem liðið tapaði einvíginu 2:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert