Lögreglustjórinn er kominn á bekkinn

Grímur Hergeirsson er lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Grímur Hergeirsson er lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum er orðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍBV í handknattleik og verður þar Erlingi Richardssyni aðalþjálfara liðsins til halds og trausts.

Selfyssingurinn Grímur Hergeirsson var í lok síðasta árs ráðinn lögreglustjóri í Eyjum og handbolti.is greinir frá því að hann sé kominn í hlutverk aðstoðarþjálfara Eyjaliðsins, og var einmitt í því hlutverki á sínum gamla heimavelli um helgina þegar Ragnarsmótið fór fram á Selfossi.

Grímur Hergeirsson á bekknum sem þjálfari Selfyssinga.
Grímur Hergeirsson á bekknum sem þjálfari Selfyssinga. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Grímur er með talsverða reynslu á þessu sviði en hann var þjálfari karlaliðs Selfyssinga tímabilið 2019-20 og hafði þar á undan verið aðstoðarþjálfari þess um árabil, m.a. þegar það varð Íslandsmeistari vorið 2019. Grímur lék jafnframt með Selfyssingum sjálfur á árum áður.

Hann leysir af hólmi Kristin Guðmundsson sem þjálfaði ÍBV við hlið Erlings en er nú kominn til Færeyja og þjálfar þar lið EB.

Grímur fagnaði sigri á sínum fyrrverandi lærisveinum því ÍBV vann Selfoss 30:25 í leik um þriðja sæti Ragnarsmótsins. Haukar unnu hinsvegar mótið en þeir sigruðu Framara 27:20 í úrslitaleiknum eftir að hafa verið með 17:6-forystu í hálfleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka