Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik og leikmaður ÍBV, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hægra hnéi á föstudaginn. Þetta er í þriðja sinn sem hún slítur krossband.
Vísir greinir frá.
Birna varð fyrir meiðslunum í sigri ÍBV gegn gróttu í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar á föstudagskvöld.
Áður á ferlinum hafði hún slitið krossbönd, á sitthvoru hnénu, og hefur því mikla reynslu, þó hún vildi glöð sleppa því að búa yfir henni, af endurhæfingarferlinu sem nú tekur við.
„Þetta er erfitt en ég er sterk andlega og ef einhver getur tekist á við þetta þá er það ég. Ég hef gert þetta áður og veit alveg hvað ég er að fara út í,” sagði hún í samtali við Vísi.
Krossbandaslitin þýða að nú missir Birna af öllu tímabilinu og setur hún því stefnuna á að vera klár í slaginn fyrir það næsta eftir um það bil ár.