KA/Þór er búið að tryggja sér sæti í annarri umferð Evrópubikarsins í handknattleik kvenna eftir þægilegan 37:34 sigur gegn Istogu frá Kósóvó í síðari leik liðanna í fyrstu umferð keppninnar í dag. Þá tapaði Valur naumlega, 28:29, fyrir serbneska liðinu Bekament í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð keppninnar.
KA/Þór var með gífurlega yfirburði til að byrja með í leik sínum gegn Istogu í Istog í Kósóvó í dag og leiddi með níu mörkum, 24:15, í hálfleik.
Norðankonur gáfu nokkuð eftir í síðari hálfleik en unni að lokum góðan þriggja marka sigur og einvígið samanlagt 63:56 eftir að hafa unnið fyrri leikinn á sama leikstað í gær, 26:22.
Markahæst í liði KA/Þórs í dag var Rakel Sara Elvarsdóttir með sjö mörk. Martha Hermannsdóttir kom þar næst með sex mörk og Unnur Ómarsdóttir skoraði fimm mörk.
Valskonur voru sömuleiðis með mikla yfirburði í fyrri hálfleik í leik sínum gegn Bekament ytra og leiddu með fimm mörkum, 10:15, í leikhléi.
Í síðari hálfleik snerist hins vegar taflið við og þurftu Valskonur að sætta sig við eins marks tap.
Markahæst Valskvenna í dag var Lilja Ágústsdóttir með átta mörk og skammt undan voru Thea Imani Sturludóttir með sjö mörk og Mariam Eradze með sex mörk.
Síðari leikur Vals og Bekament í fyrstu umferðinni fer fram líkt og sá fyrri í Arandjelovac í Serbíu á morgun.